154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Aftur þakka ég andsvarið og ég hygg að þetta sé samtal sem við eigum eftir að taka býsna oft hér í vetur, ekki bara þegar kemur að umræðu um fjárlög heldur almennt um þessi viðfangsefni sem blasa við stjórnmálunum í dag.

Með aðhaldið, sem mér og okkur í Viðreisn er tíðrætt um, þá lítum við á það sem eitt stærsta velferðarmálið núna að sýna aðhald og skynsemi vegna þess að við teljum forgangsröðun ríkisstjórnarinnar oft ranga og lítt ígrundað í hvað peningarnir fara. Eftir situr annars vegar hrópandi þörfin á því að draga úr vaxtagjöldum með niðurgreiðslu skulda og hins vegar hrópandi þörfin á því að beina fjármunum í það sem er illa fjármagnað í dag, illa frekar en van af því að verið er að setja pening í þetta en það er ekki úthugsað. Við verðum að horfast í augu við það að á sama tíma og við þenjum út fjárlögin ár eftir ár, þá þenjast biðlistar út í velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu næstum því í sama hlutfalli. Það er eitthvað rangt í þessu, það er bara þannig. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvort 1% aðhald á allt sé það besta sem hægt er að gera. Ég skil þetta ekki og þess vegna segi ég að verkefni fjárlaganefndar sé ærið og ég vildi óska að hún hefði sjálfstæði í verkum sínum og færi vel í þetta. Ég hef hlustað grannt eftir tillögum Samfylkingarinnar á þennan hátt: Þú þarft, hv. þingmaður, að sama skapi að útskýra aðeins fyrir mér hvernig aðhald getur fólgist í auknum tekjum en að ekki sé hægt að sýna aðhald hvað varðar ákveðna hluti. (Gripið fram í.) — Ég átta mig á því. Ég þarf að sjá tölurnar en eins og ég segi þá held ég að áhugaverður vetur sé fram undan.